plómur

smáljóð og örprósar

blómálfur


Gáðu að því, maður, að lítill blómálfur, sem þú sérð flögra grein af grein og á milli blóma á sólríkum sumardegi, er sterkari en þig grunar. Mundu, að hann hefur lifað af vetrarhörkur, þó hann eigi ekki í nein hús að venda. Það er flestum dauðlegum mönnum hulin ráðgáta hvernig þetta má vera, en sé blómálfurinn spurður um þetta hristir hann einungis höfuðið, dularfullur á svip og skellihlær.

á veröndinni


flugnasuð
þytur í grænu laufi

lít í bók
með svaladrykk við hönd

sýg brjóstsykur
og læt mig dreyma

kis-kis


komdu kisi minn
komdu skinnið mjúka
fínn er feldur þinn
flónið gott að strjúka

komdu kattarafmánin,
kúrðu hér í bæli
komdu kisuáþjánin
kötturinn indæli

andartak


lífið er óráðin gáta
svör fást til dæmis

í tindrandi stjörnu
sandkorni á strönd

brimi sem flæðir
taktfast upp sandinn

skýi sem siglir
um blámann

fólki í sólskini
að dansa í hring

gleði


gleðin glitrar
glóir skær
tindrar titrar
töfrar hlær

þröskuldur


allt mitt líf
hef ég staðið
á þröskuldi draumanna
vonanna
ekki slæmur staður
að lifa á

ást


ást er skrítinn fugl sem kemur og fer
ef þú ert heppinn gerir hann sér hreiður í hjarta þér
ást er ekki að eiga heldur að njóta

vor


hringurinn loksins kominn í úlpuna
sem honum af óljósum ástæðum var gefin í vetur
það er farið að hlána

primadonna


til leikstjórans:
segi upp
verð ekki með í þessum farsa
hætti samt ekki í leikfélaginu
krefst nýs hluverks í öðru leikriti

andvökubull


namm namm
hvað bragðast betur en
grillaður hefðarmaður á tígrisskinni
nýbaðaður álfur á ísbjarnarfeldi
sólbakaður farandssöngvari á grænum bala
vogskorinn úlfur í sauðargæru
hífaður köttur í trabant
sykurhúðaður sætabrauðsdrengur á silfurfati
dettur þér eitthvað annað í hug?
(who is the odd one out?)
1 kind 2 kindur 3 kindur
góða nótt og góðan dag

öryggismál


elskan mín þú þarft aldrei
að hafa áhyggjur af öryggisleysi
það eru mál sem englar sjá um
hættu að hamast í slökkvaranum
það mun aldrei kveikja á perunni
það er nóg að eiga eldspýtur
því englar elska kertaljós

tangó


skyldu englar kunna að dansa tangó?
ég verð að gá í englabókina mína því veðurstofan veit það ekki
en ef svo er þá er þetta alveg örugglega ekki síðasti tangóinn

flauel


grænt flauel
mosi sem faðmar þig

rautt flauel
kona sem elskar þig

blátt flauel
nótt sem svæfir þig

andvaka


mér gekk illa að sofna í gærkvöldi bylti mér á alla vegu og snéri mér marga hringi um sjálfa mig. loks þegar ég sofnaði urðu draumfarir mínar þungar og erfiðar.
þegar ég vaknaði í morgun var sítt hárið margvafið um líkamann svo ég varð að byrja á því að snúa því ofan af mér til þess að komast fram úr rúminu.

skógarpúki


nú er fallegasti skógarpúkinn, sá sem hoppaði léttstígur og kátur í skógarþykknin milli laufgaðra trjánna og baðaði sig í tjörnum og lækjum í sólskininu í sumar, lagstur í vetrardvala.
en ef þú ferð snemma að sofa á kvöldin í vetur verður þú ef til vill svo heppinn að hann komi til þín í draumi og dansi fyrir þig munúðarfullan gleðidans.

er eitthvað eitt sem má líkja við...


angandi akurlilju
ástríðufulla ástundun
brennandi bál
clever clues
dansandi dís
elskandi engil
fagran fugl
gríðarlegan galdur
hættulegan hlébarða
inntakslaust innskot
ímyndaða íferð
jóðlandi jólasvein
krefjandi kúnst
ljúfan leik
mjúkhenta meyju
niðdimma nótt
ofnotað orð
óttalegt ólán
pínlegt pukur
quelque quelle
rjóðustu rós
sárustu sorg
taumlausan trega
uppnuminn ungling
úfinn úlf
velgerða vaxmynd
x-large x-rated
yndislegt yndi
ýmsa ýmsa t.d.
zikk zakk
þrotlausa þraut
ætandi æsingu
ögrandi örsögu
...
hvað heldur þú?

silly liz


in love she´s fickle
oh ain´t that a pickle
´cause that´s why
she´ll never
earn no darn nickle!

kisi


hvar ertu núna litli kisi sem komst svo hljóðlega til mín eitt kvöld í sumar sem leið inn um opnar útidyr og varst hér hjá mér fram eftir nóttu?
ég strauk þér svo blítt og sagði þér sögur á kattamáli sem aðeins við tvö skiljum en svo fórstu og ég hef hvergi séð þig síðan þó ég hafi sett út rjómaskál á kvöldin og skyggnst eftir þér undir runnunum við stéttina.

kjánaprik


einn daginn
birtist hún
hamingjan
valhoppandi glaðbeitt
inn í líf mitt

við verðum
alltaf alltaf saman
hún og ég
valhoppandi glaðbeitt
kjánaprik

sund


þó dýfingar af hæsta brettinu séu tilkomumiklar og glæsilegar og veki hrifningu áhorfenda, þá er nauðsynlegra að kunna að troða marvaðann án þess að örmagnast, til að halda höfði, sínu og stundum annarra, upp úr vatni. gott er að kunna bringusund til að komast áfram og einnig skriðsund þegar meira liggur við og mjög hentugt er að geta látið sig fljóta ef svo ber undir. flugsund er vitaskuld sjónrænt mjög áhrifaríkt fyrir þá sem vilja að eftir þeim sé tekið. en stundum getur verið nauðsynlegt að synda í kafi, til dæmis þegar öll önnur sund virðast lokuð, þó má ekki synda kafsund svo lengi að maður verði súrefnislaus og það líði yfir mann og maður drukkni, því þá verður það hvort tveggja, vita gagnlaust og tilgangslaust.

sigling


lífið er úthaf sem velkir þér til og frá
stundum bindur þú bátinn
og hvílist í skjólgóðri höfn
áður en heldur til hafs á ný

flug


von
titrandi spörvi
sem flögrar
í brjósti

ótti
lamandi krumla
sem kæfir
fugla

fljúgðu fuglinn minn
fljúgðu!

þræðir


þræðirnir
lágu flæktir
um garðinn minn

ég rakti þá sundur
nú liggja þeir beinir
fyrir allra augum

að hjarta völundarhússins

næturrómansa


nóttin er flauel
sem vefur mig örmum
blíðust allra
kemur alltaf aftur til mín

nóttin er fugl
sem ber mér á vængjum
furður drauma
sem hef gleymt að morgni

leit


stend hikandi við lind
í myrkum skógi

finn bráðum leiðina heim

skuggi


þeim mun hraðar sem þú hleypur
þeim mun hraðar mun skuggi þinn elta þig

nótt


nóttin er blíð
hún ber mig á vængjum
í ódáinsland
þar sem draumar rætast
ekkert myrkur engin sorg
fær bugað

í annan heim
þar sem draumar rætast
sól vermir döggvot stræti
blóm kinka kolli
og heilsa nýjum degi

börnin brosa
keik og hoppa
á gangstéttum í parís
og enn og aftur er vor

garðurinn í desember


búið að hreinsa burt illgresið
svo er bara
að stinga upp og sá
næsta vor
byrjar nýtt líf