plómur

smáljóð og örprósar

sund


þó dýfingar af hæsta brettinu séu tilkomumiklar og glæsilegar og veki hrifningu áhorfenda, þá er nauðsynlegra að kunna að troða marvaðann án þess að örmagnast, til að halda höfði, sínu og stundum annarra, upp úr vatni. gott er að kunna bringusund til að komast áfram og einnig skriðsund þegar meira liggur við og mjög hentugt er að geta látið sig fljóta ef svo ber undir. flugsund er vitaskuld sjónrænt mjög áhrifaríkt fyrir þá sem vilja að eftir þeim sé tekið. en stundum getur verið nauðsynlegt að synda í kafi, til dæmis þegar öll önnur sund virðast lokuð, þó má ekki synda kafsund svo lengi að maður verði súrefnislaus og það líði yfir mann og maður drukkni, því þá verður það hvort tveggja, vita gagnlaust og tilgangslaust.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home